7. maí: Betanzos - Hospital de Bruma

Fengum snemmbúinn morgunmat svo við gætum lagt sem fyrst af stað í langan dag.  Kirkjan í Betanzos stendur við aðaltorgið og þar var sönglað "Nú sefur jörðin sumargræn".  Héldum því næst út úr bænum og 25 km framundan.  Sólin skein srax og hitinn jókst með hverju skrefi.  Morgundöggin glitraði og fiðrildin flögruðu.  Þrátt fyrir að malbik og steypa væri undir fót mestallan daginn þá var fegurð sveitarinnar slík að gleðin var sársaukanum yfirsterkari.   

Eftir þónokkra göngu settumst við inn á veitingastað, keyptum Fanta í gleri og bættum á vatnsbirgðir.  Þarna sáum við nokkra pílagríma og það var nýtt fyrir okkur.  Áfram héldum við og gengum svo fram á gamla konu með handljá og var hún að slá gras við veginn sem hún setti í hjólbörur.  Gaf hún sig á tal við okkur og sagðist vera að slá fyrir rollurnar sínar.  Eftir langan legg í viðbót komum við að geggjuðu hvíldarsvæði sem var við fallegt vatn.  Þar voru bekkir, salerni OG vatnshani.  Gengum berfættar í grasinu, bleyttum fætur og höfuð í ísköldu vatninu og nærðumst.  Enn einn heitur kafli tók við og þegar við vorum alveg við það að steikjast úr hita birtist lítil búlla við veginn sem seldi íspinna.  Þetta voru bestu íspinnar í heimi!!  Enn var haldið áfram og dagurinn sem átti að vera 25,5 km varð að 28 km degi hjá okkur mæðgum.  Undir það síðasta tókum við nefnilega ranga beygju því óskhyggja dótturinnar að losna við brekku framundan gerði það að verkum að hún sá skýrt og greinilega ör til vinstri ( sem sannarlega var ör beint í brekkuna ) svo við fengum eina 3 km ofan á okkur.  En dásamlega Rocío, eigandi næsta gististaðar, kom eins og himnasending að sækja okkur á endastað.  Gististaðurinn okkar var 5 km frá endapunkti dagsins og maður lifandi - þvílíkur sælureitur.  Inni í sveit, krá við hliðina, lítil á rann á bakvið gististaðinn, hundurinn Herbie og yndislegt fólk.  Þetta var fullkomin gulrót eftir langan dag.

glaðar mæðgur 


Pontedeume - Betanzos. 6.maí

Vöknuðum 6:00 - löngu fyrir hringingu vekjaraklukkunnar og 20 km framundan.  Morgunmatur klukkan átta á barnum hjá eiganda gististaðarins, ný reynsla að borða morgunmat á bar!  Sólin tók á móti kl 8:30, stoppuðum við Santiago kirkjuna í bænum og þar var sungið "Þú eina hjartans".  Fallegt útsýni um allt á uppleið út úr bænum en eins og áður mikið um húsarústir.  Við vorum heppnar, það var lítið um umferð á leið okkar.  Stoppuðum í Mino eftir mikla upp og niður göngu og þannig er erfitt að ganga í 30 stiga hita.  Fengum okkur Fanta og Kitkat.  Áfram héldum við meðfram á sem fylgdi okkur þennan daginn þó við sæjum hana ekki alltaf.  Í hádeginu fengum við okkur dýrðlegasta croissant sem um getur, keyptum það hjá yndislegum manni í bakaríi í Pontedeum deginum áður.  Nú lá leið okkar á jafnsléttu í smá tíma en þá kom upp - upp - upp, uns við komum auga á vatnshana og þá var bara um eitt að ræða, hausinn undir og skrúfað frá.  Þetta bjargaði deginum.  Stoppuðum við kirkju á fallegum stað ofan við Betanzos og þar var sungið "Heyr mína bæn".  Þá fór loks að halla niður á við og við héldum að allt klifur upp væri búið þennan daginn en það kom ný og ný brekka.  Einn km utan við Betanzos stoppuðum við hjá kirkju og sungið var "Líttu sérhvert sólarlag".  Loks komumst við eftir 7 tíma göngu á gististaðinn - 20 km með mörgum stoppum vegna gífurlegs hita.  

Þrátt fyrir erfiðan dag erum við þakklátar að það er þurrt, við eigum alltaf öruggt skjól í lok dags og eftir næturhvíld erum við tilbúnar í næsta dag.

kellur á flakki


5. maí - fyrsti göngudagur

Vöknuðum klukkan 6:00 í Ferrol í ísköldu herbergi - það er greinilega vani hér að slökkva á kyndingunni um miðjar nætur. Það var því ekki lengi gert að klæða sig og útbúa fyrir daginn og svo var morgunmatur klukkan 7:00.  Við héldum svo út í daginn sem var baðaður í sól og 29 km framundan.  Við mæðgur ágætlega upplagðar.  Það var löng ganga út úr bænum og mikið á steyptum stéttum.  Svo gengum við meðfram sjónum á malarstígum og það er næst best.  Allt gekk þetta vel og stoppað var við tvær kirkjur.  Báðar voru læstar en þá hljómuðu íslensku lögin bara í náttúrunni.  Grafskrift var sungin við kirkju utan við Ferrol og Smaladrengurinn á grænni grundu utan við kirkju í Neda, sem er næsti bær við Ferrol.  Neda er fallegur bær sem stendur við sjó og það er nú bara þannig að allt er fallegra í sól.  Við stoppuðum á leið út úr Neda á veitingastað og fengum okkur smá næringu, gott að hvíla sig í þessum hita.  Leiðin lá í gegnum skó og öll uppganga varð erfiðari vegna hitans, um 25 gráður þennan dag.  Við gengum gegnum sveitir, dýrin glöddu okkur, appelsínu- og sítrónutré meðfram veginum og yfirgefin hús sem voru þakin gróðri.  Á hæð einni sáum við loks Pontedeum þar sem við gistum, þvílíkur léttir.  Bærinn er einstaklega fallegur uppi í hlíðum við sjóinn og það var ekki langt í gististaðinn okkar.  Okkur leist nú ekki á hann þegar við komum í anddyrið en það breyttist þegar inn í herbergið var komið.  Gamalt hús, uppgert í grófum og fallegum stíl.  Litlar svalir þar sem þvotturinn okkar hékk og inn um gluggana lagði ilminn úr bakaríinu á móti.  Smáatriðin vantaði ekki þarna inni, steindir náttborðslampar, silkislaufur á herðatrjánum og hlaðinn steinaveggur sem rúmgafl.  Sturtan var kærkomin og eftir hana hófst þvælingur um bæinn í leit að tapasbar sem endaði með því að bakarískjötlokur voru í kvöldmat.  Röltum aðeins um torgið í bænum sem iðaði af mannlífi og héldum svo heim að njóta þessa dásamlega herbergis.  Gleðjumst yfir góðum degi og vonum að sá næsti verði jafn góður.

Lengsti dagur göngunnar liðinn

Mæðgurnar


4.maí 2018

Jæja, þá er komin 4. maí og sólin skín hátt á lofti.  Morgunmatur kl 6:30 - fyrsta flokks.  Sumir voru að flýta sér svo mikið að þeir borðuðu standandi og stungu svo ýmsu góðgæti í töskurnar á leiðinni út (þetta á auðvitað ekki við um okkur).  

 
Við misstum af flugrútunni kl 7 af óviðráðanlegum orsökum.   Biðum því í 15 mínútur eftir næstu rútu.   Aksturinn var lengri en við áttum von á svo við vorum ekki komnar að innritun fyrr en 25 mínútum áður en hliði yrði lokað og biðröðin ì innritun var löööng.  Stresspúlsinn fór upp úr öllu valdi.   En blessunarlega benti ung kona okkur á að við ættum að fara í  aðra röð sem á stóð "last call" og við náðum þessu öllu, enda ferðafélaginn okkar góði með í för.  
 
Lentum í  Santiago de Compostella eftir 50 mínútna flug.  Strætó tekinn þaðan að rútustöðinni.  Særún var gapandi yfir öllum þeim fjölda pílagríma sem voru arkandi götur og stræti.  Nú höfðum við tímann fyrir okkur, keyptum rútumiða, 40 mínútna bið í brottför svo við hlömmuðum okkur á bekk og fórum að blaðra við pílagríma frá Hollandi.  
 
Allt í einu áttuðum við okkur á því að vagninn sem við héldum að væri okkar var það bara alls ekki og 2 mínútur í brottför.   Við stukkum upp, aftur rauk púlsinn upp en enn og aftur blessaðist allt og til Ferrol komum við klukkan 13 og vorum þá búnar að aka leiðina sem við eigum eftir að ganga næstu 5 dagana. 
 
Fengum fyrsta stimpilinn í syndaaflausnabókina og svo var kveikt á gps appinu og þannig rötuðum við á hótelið án teljandi vandræða.  Ágætt hótel, enginn íburður en við komum okkur fyrir og fórum svo í bæinn.  Tveir áheitasöngvar sungnir fyrir utan tvær kirkjur, pizzu rennt niður með einum ísköldum (sú eldri) og kók (sú yngri) og svo þarf að hvíla sig fyrir daginn stóra á morgun.  
 
Ferrol er hafnarbær, mikið af smáum og stórum bátum.  Bærinn liggur í hæðum upp frá sjónum og sólin hefur skinið á okkur í allan dag.
 
Ef þið hafið áhuga á að styrkja gjörninginn og Magga Þór þá eru bankaupplýsingar þessar:
0515-14-600301 og kennitala 1008723669.
Sjá má video af gjörningunum á Facebook undir heitinu Áheitasöfnun á Camino Inglés
 
Þökkum fyrir góðan dag og vonum að okkur verði gefinn annar slìkur á morgun.
 
Kær kveðja úr sólinni 
Glaðar og spenntar erum við.
Særún og Rúna í Ferrol.

3.maí 2018

Fórum í loftið frá Keflavíkurflugvelli 7.50 og lentum í Amsterdam 2.5 tímum seinna eftir gott flug.
Sú eldri í þessu ævintýri var orðin frekar stressuð því lítill tími var til þess að ná tengifluginu til Madrid.
En allt gekk vel og við lentum all harkalega niður en úti skein sólin og klukkan orðin 4.
Við tókum leigubil á hótelið og bílstjórinn villtist aðeins af leið með okkur en skilaði okkur loks á Tryp Almeda hotel og fengum þetta líka fína herbergi og það voru þrjú rúm þar inni. Allt hreint og fínt og við glaðar að allt gekk vel. 
Við fórum út í sólina og röltum um nágrennið og ég viðurkenni það nú alveg  að gott var að finna ylinn frá þeirri gulu á himninum.
Förum snemma í háttinn því víð eigum flug kl.8. til Santiago.
Við hlökkum mikið til og erum staðráðnar að leggja allt okkar í þessa áheitargöngu okkar.
Njótum þess að horfa á allt þetta fallega í  kringum okkur og þökkum fyrir fólkið sem okkur er kært

Heyrumst fljótlega 
Mæðgur í Madrid.

Mæðgur á ferð

Dagana 5.-10. maí munum við mæðgurnar, Rúna og Særún, ganga leiðina sem nefnist Camino Inglés.  Þetta er fyrsta pílagrímaganga Særúnar en sú fimmta hjá Rúnu.

Fjórar fyrri göngur Rúnu eru: 

Jakobsvegurinn árið 2010: 912 km. leið frá Saint Piet de Port í Frakklandi til Santiago de Compostela og svo yfir til Finisterre og Muxia á Spáni.

Via Francigena del Sur árið 2013: 260 km leið frá Teano til Rómar á Ítalíu.

Camino del Norte árið 2014 og 2016: 814 km. leið frá Irún til Santiago de Compostela - árið 2014 fór hún frá Irún til Guemes og kom svo aftur árið 2016 og kláraði leiðina.

St. Olav´s way árið 2017:  650 km. leið frá Osló til Þrándheims í Noregi.

 

Í þetta sinn fer Rúna heldur styttri leið en áður, aðeins 125 km. leið frá Ferrol á Norður - Spáni til Santiago de Compostela, en það borgar sig þegar maður er með óvanan pílagríma með í för að fara bara stutta göngu fyrst og svo lengri göngu næst! 

 

Camino Inglés, eða enska leiðin, er leið sem pílagrímar frá Norður - Evrópu, Bretlandi og Írlandi gengu til Santiago til forna og var einnig mikilvæg viðskiptaleið. 

 

Við mæðgur hefjum för frá Íslandi að morgni 3. maí næstkomandi þaðan sem við fljúgum til Madrid með millilendingu í Amsterdam.  Í Madrid gistum við eina nótt, fljúgum þá yfir til Santiago de Compostela og ferðumst þaðan með rútu til Ferrol.  Eftir einnar nætur gistingu þar hefjum við göngu þann 5. maí.  Þetta verður einstök upplifun fyrir okkur báðar - við stígum skrefin saman, lærum hvor af annarri og umfram allt njótum og lifum.  

Það sem við ætlum að gera aukreitis á þessari göngu er að koma við í eins mörgum kirkjum og hægt er og í eða við hverja þeirra mun Særún syngja á íslensku og Rúna taka gjörninginn upp á video.  Munu myndskeiðin svo vera birt á síðu sem nefnist Áheitasöfnun á Camino Inglés á Facebook.

Tilgangurinn með þessum gjörningi er að safna í sjóð fyrir Magga Þór, 20 ára gamlan dreng með CP sem hefur verið bundinn hjólastól frá barnæsku vegna fötlunar sinnar.  Magga er hægt að lýsa með óteljandi fallegum orðum - hann elskar að upplifa og vera til.  Líf hans er takmarkað að mörgu leyti en hann hefur mikinn vilja til að láta drauma sína rætast.  Einn af hans stærstu draumum er að eignast eigin bíl.  

Hann er bundinn Ferðaþjónustu fatlaðra til að komast erinda sinna og þar er sjálfstæði hans skert að afar miklu leyti.  Ferðaþjónusta fatlaðra starfar þannig að Maggi þarf að panta bíl degi áður en hann langar eða þarf að erindast eitthvað utan heimilis.  Þá þarf hann að vera búinn að ákveða hvenær hann ætlar að fara að heiman og hvenær á að sækja hann og aka til baka.  Hann getur aldrei ákveðið með örstuttum fyrirvara að fara í bíó, að kaupa ís, í bíltúr upp í sveit eða í heimsóknir.  Þá getur hann ekki heldur ákveðið að hann langi allt í einu að staldra lengur við á einhverjum staðnum, hann verður sóttur á þeim tíma sem pantaður var deginum fyrr.  Magga stendur heldur ekki til boða í dag að fara út fyrir borgarmörkin að upplifa og njóta - ferðaþjónustan ekur ekki þangað.  

Okkur finnst að það að vera bundinn hjólastól sé nægileg takmörkun á lífi Magga.  Hann á ekki að vera bundinn að neinu öðru leyti og því viljum við leggja okkar að mörkum til að hann geti fengið draum sinn um bíl uppfylltan.  Endilega hjálpið okkur að færa Magga nær draumnum sínum og styrkið gjörninginn okkar á Camino Inglés.  Reikningurinn er 0515-14-600301 og kennitalan 1008723669

Hjartansþakkir

Rúna og Særún


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband