4.maí 2018

Jæja, þá er komin 4. maí og sólin skín hátt á lofti.  Morgunmatur kl 6:30 - fyrsta flokks.  Sumir voru að flýta sér svo mikið að þeir borðuðu standandi og stungu svo ýmsu góðgæti í töskurnar á leiðinni út (þetta á auðvitað ekki við um okkur).  

 
Við misstum af flugrútunni kl 7 af óviðráðanlegum orsökum.   Biðum því í 15 mínútur eftir næstu rútu.   Aksturinn var lengri en við áttum von á svo við vorum ekki komnar að innritun fyrr en 25 mínútum áður en hliði yrði lokað og biðröðin ì innritun var löööng.  Stresspúlsinn fór upp úr öllu valdi.   En blessunarlega benti ung kona okkur á að við ættum að fara í  aðra röð sem á stóð "last call" og við náðum þessu öllu, enda ferðafélaginn okkar góði með í för.  
 
Lentum í  Santiago de Compostella eftir 50 mínútna flug.  Strætó tekinn þaðan að rútustöðinni.  Særún var gapandi yfir öllum þeim fjölda pílagríma sem voru arkandi götur og stræti.  Nú höfðum við tímann fyrir okkur, keyptum rútumiða, 40 mínútna bið í brottför svo við hlömmuðum okkur á bekk og fórum að blaðra við pílagríma frá Hollandi.  
 
Allt í einu áttuðum við okkur á því að vagninn sem við héldum að væri okkar var það bara alls ekki og 2 mínútur í brottför.   Við stukkum upp, aftur rauk púlsinn upp en enn og aftur blessaðist allt og til Ferrol komum við klukkan 13 og vorum þá búnar að aka leiðina sem við eigum eftir að ganga næstu 5 dagana. 
 
Fengum fyrsta stimpilinn í syndaaflausnabókina og svo var kveikt á gps appinu og þannig rötuðum við á hótelið án teljandi vandræða.  Ágætt hótel, enginn íburður en við komum okkur fyrir og fórum svo í bæinn.  Tveir áheitasöngvar sungnir fyrir utan tvær kirkjur, pizzu rennt niður með einum ísköldum (sú eldri) og kók (sú yngri) og svo þarf að hvíla sig fyrir daginn stóra á morgun.  
 
Ferrol er hafnarbær, mikið af smáum og stórum bátum.  Bærinn liggur í hæðum upp frá sjónum og sólin hefur skinið á okkur í allan dag.
 
Ef þið hafið áhuga á að styrkja gjörninginn og Magga Þór þá eru bankaupplýsingar þessar:
0515-14-600301 og kennitala 1008723669.
Sjá má video af gjörningunum á Facebook undir heitinu Áheitasöfnun á Camino Inglés
 
Þökkum fyrir góðan dag og vonum að okkur verði gefinn annar slìkur á morgun.
 
Kær kveðja úr sólinni 
Glaðar og spenntar erum við.
Særún og Rúna í Ferrol.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband